Um Heilshugar

Heilshugar er alhliða sálfræðiþjónusta sem rekin er af Lilju Sif Þorsteinsdóttur, sálfræðingi.

Lilja Sif fékk starfsleyfi árið 2011 frá Háskóla Íslands. Fyrstu árin starfaði hún sem sálfræðingur á Reykjalundi, lengst af sem sálfræðingur lungnateymis. Að auki starfaði hún sem sálfræðingur hjartateymis síðustu tvö ár sín í starfi og þar áður hafði hún viðkomu bæði í geðheilsuteymi Reykjalundar og offitu- og næringarteymi.

Lilja starfaði sem sálfræðingur Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra, í rúmlega ár frá 2014 til 2015 og rak að auki eigin stofu á tímabili undir merkjum Heilshugar.

Á haustmánuðum árið 2015 flutti Lilja til Noregs þar sem hún starfar sem sálfræðingur á afeitrunar- og endurhæfingarstöð fyrir fólk með vímuvanda og á göngudeild offitu í bænum Førde í Vestur-Noregi.

Í grunninn starfar Lilja eftir aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar en nýtir sér einnig aðferðir EMDR áfallameðferðar og klíníska dáleiðslu þegar það er viðeigandi.

Þar að auki hefur Lilja nokkuð fengist við almennt sálfræðilegt mat og greiningu, ADHD mat á fullorðnum, afleiðingar kynferðisafbrota og annarra áfalla, almennan kvíða, þunglyndi og félagsfælni.

Að auki hefur Lilja sinnt fræðslu og námskeiðahaldi um ýmis sálfræðileg málefni, allt frá grunnfræðslu um tilfinningar og sálarlíf til hópameðferða vegna sálfræðilegra raskana.

 

“Ég er upphaflega þjálfuð í hugrænni atferlismeðferð en hef síðan þá bætt við mig færni í EMDR tækni, klínískri dáleiðslu og núvitund.

Ég hef unnið mikið með fólki sem á við langvarandi heilsufarsvanda að stríða, sérstaklega fólki með langvarandi lungnasjúkdóma, krabbamein, hjartasjúkdóma, offitu og fíkniraskanir.

Hvert meðferðarsamband er einstakt, svo það veltur á því hvert vandamálið er, hugsanastíl þínum og hvernig þér finnst þægilegast að vinna hvernig við nálgumst vandamálið, en mitt markmið sem meðferðaraðili er að skoða hvar þú ert stödd/staddur, hvert þig langar að komast, og hvað það er sem upp á vantar svo þú náir frá A til B. Og verða svo samferða þér á áfangastað.”